fbpx

Hinsegin fólk 97% líklegra til að verða fyrir ofbeldi

Heim / Fréttir / Hinsegin fólk 97% líklegra til að verða fyrir ofbeldi
Afsana Islam Jonaki, 22, is a transgender from Parchalna of Dacope upazila in Khulna

Afsana Islam Jonaki er transkona frá Indlandi sem notið hefur stuðnings frá UN Women.

UN Women er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að réttindum hinsegin fólks um allan heim. Jafnrétti verður ekki náð nema með jöfnum réttindum allra, þar með talið hinsegin fólks.

UN Women viðurkennir rétt fóks til að ákvarða eigið kyn og kynhneigð og telur slíkt ekki ógna velferð eða réttindum annarra samfélagshópa, þ.m.t. kvenna.

UN Women telur hingsegin hreyfinguna til bandamanna, enda berjast þau fyrir mannréttindum og jöfnum rétti, rétt eins og kvennahreyfingin. Hinsegin fólk glímir margt við sömu áskoranir og konur: það býr við ofbeldi, jaðarsetningu, fordóma, takmörkuð réttindi og lög sem mismuna þeim vegna kyns og kynhneigðar.

Það er því mikilvægt að UN Women sinni áfram forystuhlutverki innan Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóða vettvangi.

Öll verkefni UN Women er snúa að málefnum hinsegin fólks fylgja sömu fimm áherslumálum og önnur verkefni stofnunarinnar sem miða að því að auka réttindi kvenna:

  1. Auka pólitíska þátttöku og þátttöku í opinberu lífi
  2. Fjárhagsleg valdefling og sjálfstæði
  3. Uppræta kynbundið ofbeldi
  4. Friður og öryggi, neyðaraðstoð og varnaráætlanir sem taka mið af öllum kynjum
  5. Efla kynjaða gagnaöflun og aðgerðaráætlanargerð

Glæpur að vera þau sjálf

Víða um heim býr hinsegin fólk við gríðarlega mismunun, ofbeldi og skert réttindi. Þeir hópar sem búa við hvað mesta mismunun og fordóma í heiminum í dag eru transkonur og intersex konur.

  • 2 milljarðar fólks býr í ríkjum þar sem hinseginleiki er álitinn glæpur
  • 35% ríkja heims búa yfir lögum sem banna samkynhneigð og samkynhneigð sambönd
  • Í 6 löndum ríkir dauðarefsing fyrir og samkynhneigð og sambönd fólks af sama kyni
  • Baráttufólk fyrir réttindum hinsegin fólks verður víða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum, ólögmætri frelsissviptingu, áreitni, pyntingum, ofbeldi og í verstu tilfellunum er það myrt fyrir baráttu sína.
  • Fá ríki viðurkenna rétt kyn transfólks eða gerir það með ofbeldisfullum skilyrðum, t.d. þvinguðum ófrjósemisaðgerðum (e. mandatory sterilisation for legal gender recognition)

Eitt stærsta verkefni UN Women í þágu jafnréttis er gagnaöflun. Ósýnileiki hinsegin fólks er ein stærsta hindrunin í baráttunni fyrir jöfnum réttindum þeirra.

Áætlað er að um 19 milljónir til 1 milljarður fólks í heiminum í dag sé hinsegin. Þetta eru þó ágiskanir, því töluleg gögn um tilvist þeirra eru ekki tiltæk. Ef við búum ekki yfir upplýsingum um hinsegin fólk, búsetu þeirra, stöðu og þörfum, er erfitt að bregðast við þeim.

Önnur stór áskorun er að tryggja öryggi starfsfólks UN Women og samstarfsaðila sem vinna í þágu hinsegin fólks eða eru sjálf hinsegin, sérstaklega í löndum þar sem samkynhneigð er ólögleg. Stofnanir og félagasamtök sem sinna þessum málaflokki þurfa að hlúa sérstaklega að starfsfólki sínu.

Hinsegin fólk á flótta

Ofbeldi gegn hinsegin fólki margfaldast á tímum hamfara og átaka. Í ríkjum þar sem átök geisa, eykst ofbeldi í garð hinsegin fólks. Í Sýrlandi, Úganda, Sómalíu, Pakistan og Afganistan er samkynhneigð ólögleg og liggur dauðarefsing við  henni. Þessi lönd glíma jafnframt við átök og skort og því hefur reynst félagasamtökum erfitt að nálgast hinsegin fólk og veita þeim nauðsynlega aðstoð.

Þá gleymist ítrekað að gera ráð fyrir þörfum hinsegin fólks þegar mannúðaraðstoð er veitt.

  • Að minnsta kosti 5% þeirra sem eru á flótta í heiminum í dag eru hinsegin fólk. Mörg þeirra eru á flótta sökum kynhneigðar og/eða kynvitundar og/eða aktívisma í þágu hinsegin réttinda
  • Hinsegin fólk á flótta er 97% líklegra til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en þau sem ekki skilgreina sig sem hinsegin
  • 2018 fjölgaði umtalsvert umsóknum um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna vegna kynvitundar/kynhneigðar
  • Á flótta býr hinsegin fólk, og þá sérstaklega transfólk, við meiri hættu á að vera fangelsað, vísað úr landi, synjað um vernd, verða fórnarlamb mansals, kynferðislegu ofbeldi og nauðgunum, misnotkun og áreiti, þ.m.t. af hendi landamæravarða, lögreglu, glæpamanna og smyglara
  • Aðeins 37 ríki heims veita hinsegin fólki alþjóðlega vernd/hæli á grundvelli ofsókna vegna kynvitundar/kynhneigðar

Tómur sjóður

UN Women hefur rekið fjölbreytt og gríðarlega mikilvæg verkefni í þágu hinsegin fólks um allan heim. Fjármagn til málaflokksins er þó orðið uppurið og framtíð verkefnanna því í óvissu. UN Women á Íslandi mun styðja við verkefnin með FO herferðinni 2022, sem fer í loftið föstudaginn 2. september. Allur ágóði á sölu FO varningnum í ár rennur óskiptur til hinsegin verkefna UN Women.

Related Posts
Afsana Islam Jonaki, 22, is a transgender from Parchalna of Dacope upazila in Khulna