fbpx

Málþing og þróunarsamvinna

Heim / Fréttir / Málþing og þróunarsamvinna

throunnarDagana 5. – 9. september standa frjáls félagasamtök ásamt Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) fyrir kynningarátaki á markmiðum þróunarsamvinnu.

Miðvikudaginn 7. september verður gjörningur undir yfirskriftinni „Þróunarsamvinna ber ávöxt.“

Megin tilgangur átaksins er að kynna árangur af þróunarsamvinnu í fátækustu ríkjum heims en miklar framfarir hafi orðið í þróunarríkjunum fyrir tilstuðlan alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þá er markmiðið  að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda. Fyrir fjármagn frá Íslendingum eru frjáls félagasamtök og opinberir aðilar að bjarga mannslífum og bæta lífsgæði tuga þúsunda manna og er þeim fjármunum vel varið.

Fimmtudaginn 8. september verður málþing um þróunarsamvinnu í sal 102 á Háskólatorgi í Háskóla Íslands kl. 12:00-13:00. Jón Kalman Stefánsson rithöfundur flytur erindið Þróunarframlög Íslands – stolt okkar eða þjóðarskömm? Helga Þórólfsdóttir friðarfræðingur fjallar m.a. um það hvað það er að ná árangri í hjálparstarfi og Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÞSSÍ ræðir um gagnrýni á þróunarsamvinnu og úttektir á notagildi slíkrar samvinnu. Fundarstjóri er Regína Bjarnadóttir, formaður stjórnar UN Women á Íslandi. Málþingið er haldið í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Þessu til viðbótar má nefna að daglega þessa viku birtast greinar um þróunarsamvinnu í Fréttablaðinu. Frjálsu félagsamtökin sem taka þátt í verkefninu með ÞSSÍ eru Rauði kross Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF, UN Women á Íslandi, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, SOS barnaþorp og ABC barnahjálp.

Seinna um daginn eða klukkan 14:30-16:00 heldur Nawal El Saadawi fyrirlestur í Norræna húsinu á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og  Bókmenntahátíðar í Reykjavík, sem hún kallar „Creativity, Dissidence and Women“ eða „Sköpunarmáttur, andóf og konur“. Í fyrirlestrinum mun El Saadawi kanna merkingu hugtakanna, sköpunarmáttur, andóf og konur, og velta fyrir sér tengslum þeirra við trúarbrögð. Hún mun jafnframt ræða þá ógn sem harðstjórnum heimsins stafar af sköpunarmætti kvenna.

Að fyrirlestri El Saadawi loknum verða pallborðsumræður en þeim stýrir Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki. Þátttakendur í pallborði verða: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. utanríkisráðherra; Hoda Thabet, doktorsnemi við íslensku- og menningardeild og stundakennari við HÍ; og Khaled Mansour, sérfræðingur hjá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna og nemandi við Alþjóðlegan jafnréttisskóla við HÍ.

Related Posts