Luiza Karimova var 22ja ára einstæð móðir þegar hún flutti til Kyrgizstan í leit að betra lífi. Henni hafði boðist þjónustustarf og launin voru mun betri en hún hefði nokkurn tíma fengið fyrir sambærilegt starf í Úsbekistan. Breytingin myndi auðvelda líf hennar og 18 mánaða gamals sonar hennar.

„Ég ákvað að skilja litla eins og hálfs árs gamla strákinn minn eftir hjá foreldrum mínum til að byrja með á meðan ég kæmi mér fyrir á nýjum stað í nýju starfi. Ég var ómenntuð og því var erfitt fyrir mig að finna starf á sæmandi launum. Þegar ég kom til Kyrgizstan var tekið á móti mér og ég keyrð í íbúð ásamt nokkrum öðrum konum. Þeir tóku af okkur vegabréfin og sögðu okkur að við fengjum vegabréfin daginn eftir með áritun upp á starfsréttindi. Mér fannst þetta skrítið, en trúði þeim.“

Því næst voru þær sendar með flugi til Dubaí. Vegabréfin voru afhent við lendingu en þau voru glæný og fölsuð. Luiza sá vegabréfið sitt aldrei aftur.

„Við vorum fluttar í íbúð í Dubaí þar sem fyrir var fjöldi kvenna. Ein þeirra sagði við mig: „Frábært, nýjar konur! Nú minnkar álagið á okkur hinum.“ Þá áttaði ég mig á því í hvaða martröð ég væri lent. Ég hafði verið hneppt í kynlífsþrælkun. Næsta dag var ég send á næturklúbb þar sem ég þurfti að gera hvað sem kúnnarnir vildu og var skylt að þéna rúma milljón íslenskra króna á einum mánuði.“

„Næstu átján mánuðina lifði ég í kynlífsþrælkun og fór aldrei neitt nema í fylgd. Eina nóttina náði ég að strjúka út af næturklúbbnum og hljóp beint í fangið á lögreglumönnum. Þeir handtóku mig og ég fékk árslangan fangelsisdóm fyrir að bera falsað vegabréf.“

Eftir að Luiza losnaði úr fangelsi fór hún á götuna. Hún átti ekki í nein hús að venda. Einn daginn gekk hún fram á samtök og athvarf fyrir þolendur mansals styrkt af UN Women í Kyrgizstan sem aðstoða  þolendur mansal og kynbundið ofbeldi að losna úr viðjum mansals og læra leiðina aftur út í lífið. Þar fékk hún aðstoð, sjálfstyrkingu og starfar í dag sem fyrirlesari hjá samtökunum og fræðir ungar stúlkur og konur hvernig ber að þekkja merki um hættu á mansali. Farandverkakonur eiga í verulegri hættu á að vera hnepptar í mansal og kynlífsþrælkun.