fbpx

„Konur þurfa að styðja hver aðra til að þrauka hér í búðunum“

Heim / Fréttir / „Konur þurfa að styðja hver aðra til að þrauka hér í búðunum“

Ofsóknir á hendur Róhingjum hófust fyrir áratugum en hertust til muna í ágúst 2017. Síðan þá hafa hundruðir þúsunda Róhingja flúið frá Mjanmar til Bangladess í flóttamannabúðir við borgina Cox´s Bazar.

Nur Nahar er 35 ára gömul Róhingjakona sem þekkir fátt annað en að búa í flóttamannabúðum en þar hefur hún búið undanfarin 28 ár. Hún starfar sem leiðbeinandi í neyðarathvarfi UN Women í búðunum.

„Ég var sjö ára þegar ég flúði ásamt mömmu minni frá Mjanmar til Bangladess. Eina sem ég man var að við sigldum á báti yfir og að mamma mín sagði mér að við þyrftum að flýja vegna þess að Mjanmarski herinn hafði myrt níu ára gamlan bróður minn.“

Noor hefur alltaf trúað því að ofbeldinu myndi linna og að einn daginn gæti hún snúið aftur heim til Mjanmar. En hún er að missa trúna í ljósi þess að ofsóknir og ofbeldi af hendi Mjanmarska hersins hefur aukist til muna og aldrei hafa fleiri Róhingjar flúið en núna.

„Þar sem ég er flóttakona og veit nákvæmlega hvaða erfiðleikar fylgja því að vera kona hér í búðunum vil ég gefa af mér. Ég er því í stuðningshópi fyrir konur hér í búðunum og brenn fyrir að styðja við aðrar konur sem eru nýkomnar hingað.  Ég kenni fjóra daga í viku klæðskurð og saum í neyðarathvarfi UN Women í búðunum, legg mig fram við að verða vinkona kvennanna og veiti þeim upplýsingar um allt hér í búðunum. Konur þurfa að styðja hver aðra til að þrauka hér í búðunum,“ segir Noor og heldur áfram.

„Ég þekki vel grunnþarfir kvenna hér í búðunum; dömubindi, slæður til að hylja sig svo þær þori út úr kofum sínu, vasaljós og vistvæn kol. Eins þurfa þær hagnýtt nám, hvatningu, valdeflingu og atvinnutækifæri til að að geta aflað tekna fyrir sig og fjölskyldur sínar. Ef við tökum vel á móti konum og styðjum þær – veita þær öðrum konum stuðning. Þannig höfum við fiðrildaáhrif hér í búðunum. Ég veit svo sem ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en ég vil bjartari framtíð fyrir börnin mín og lifa í friði og ró.“

Með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili styður þú við konur eins og Nur → Skrá mig hér

Mynd: UN Women/Allison Joyce

Related Posts