Berst gegn ofbeldi með efnahagslegri valdeflingu

Home / Dæmisögur / Berst gegn ofbeldi með efnahagslegri valdeflingu

atefe-mansoori„Bændur héldu að ég myndi ekki ráða við að vera með fyrirtæki af því að ég er kona,“ segir Atefe Mansoori sem sat frumkvöðlanámskeið fyrir konur í Afganistan á vegum UN Women.

„Þegar ég byrjaði að vinna með saffran og koma því á erlenda markaði vildu bændur og framleiðendur ekki samstarf við mig þar sem að ég er kona. Þeir töldu mig ekki nægilega sterka til þess að sjá um svona fyrirtæki. Með aðstoð frá eiginmanni mínum og öðrum karlmönnum í fjölskyldunni, settist ég niður með saffran framleiðendunum og útskýrði fyrir þeim að ég hefði þekkingu, reynslu og kunnáttu til þess að reka þetta fyrirtæki. Ég sannfærði þá um að þeir myndu ekki tapa á því að treysta mér. Eftir marga fundi samþykktu nokkrir framleiðendur loks að vinna með mér.

Næst þurfti ég að sannfæra konur til að vinna með mér. Í þorpinu mínu voru konur óvanar því að vinna utan heimilisins. Ég talaði við eiginmenn þeirra og aðra fjölskyldumeðlimi, og útskýrði fyrir þeim kostina sem það hefur í för með sér að vinna utan heimilisins. Ég sagði eiginmönnunum: „Konur ykkar og dætur geta þénað peninga sem leggjast ofan á innkomu heimilisins, og þær myndu vinna með öðrum konum.“ Eftir langar samræður við hverja fjölskyldu samþykktu þær loksins að vinna með mér. Nú eru þær flestar í atvinnurekstri og reka sín eigin fyrirtæki.“

Það voru þó ýmsir neikvæðir fylgifiskar sem fylgdu þessu jákvæða framtaki Mansoori eins og til dæmis dauðahótanir frá öfgatrúarhópum. „Þrátt fyrir mikið mótlæti gafst ég aldrei upp. Ég vissi að eina leiðin til þess að útrýma ofbeldi gagnvart konum væri að hjálpa þeim með efnahagslegri valdeflingu og sjálfstæði. Með þetta í huga vann ég stíft og barðist fyrir því að hjálpa konum að læra, vinna og þéna. Og viti menn, þetta virkaði.“

Atefe Mansoori er meðal 120 kvenna sem mætti á námskeið skipulagt af UN Women í Afganistan. Konurnar, sem allar eru frumkvöðlar á sínu sviði, komu saman til þess að deila sínum sögum, ræða saman og læra hver af annarri.

Related Posts