2,1 milljarður jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu neysluvatni

Á 80% heimila sem glíma við viðvarandi vatnsskort eru konur og stúlkur ábyrgar fyrir því að sækja neysluvatn. Oft þurfa þær að ganga langar vegalengdir eftir vatni sem lengir vinnudag þeirra umtalsvert og eykur líkur á hitaörmögnun. Í sumum tilfellum eru stúlkur einfaldlega teknar úr skóla til að sinna vatnsöflun.

Í 25 ríkjum sunnan Sahara eyða konur samanlagt um 16 milljónum klukkustundum á dag í leit að hreinu neysluvatni handa fjölskyldum sínum. Til samanburðar eyða karlmenn 6 milljón klukkustundum á dag í sömu störf.

Hvaða áhrif hefur vatnsskortur á heilsufar kvenna?

Tíðir þurrkar í kjölfar loftslagsbreytinga hafa heft aðgengi fólks að hreinu neysluvatni og víða eru vatnsból að ganga til þurrðar. Skorti á vatni og hreinlætisaðstöðu fylgja ýmsir sjúkdómar á borð við niðurgang (sem dregur um 2,2 milljónir manna til dauða ár hvert, flest þeirra börn undir 5 ára aldri), kóleru og blóðkreppusótt.

Við fæðingar skiptir aðgangur að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu sköpum fyrir líf og heilsu móður og barns. 

Hvernig tryggjum við aðgengi að hreinu vatni?

UN Women vinnur um allan heim að því að auka aðgengi að neysluvatni, tryggja konum viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu, og þjálfa starfsfólk til að bregðast við þurrkum.