23 barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverri mínútu

Ofbeldi gegn konum, mansal, mæðradauði, þvinguð barnahjónabönd, sultur og vannæring eru allt vandamál sem færast í aukana samhliða langvarandi þurrkum eða flóðum sem rekja má til loftslagsbreytinga. Þá eru stúlkur gjarnan teknar úr skóla svo þær geti aðstoðað við fæðuöflun.

Á tímum neyðar í kjölfar hamfara og átaka fjölgar tilfellum þvingaðara barnahjónabanda umtalsvert.

Staðreyndin er því miður sú að um 12 milljónir stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á ári hverju. Þessi skaðlegi siður hefur víðtæk áhrif á líf stúlkna, sem neyðast til að hætta í skóla og eru því líklegri til að festast í viðjum fátæktar.

Barnungar stúlkur eru talsvert líklegri til að deyja af barnsförum þar sem óþroskaðir líkamar þeirra eru ekki búnir undir meðgöngu og fæðingu.

Mæðradauði er ein helsta dánarorsök stúlkna á aldrinum 15-19 ára. Það þýðir að stúlkur á grunn- og menntaskólaaldri eru líklegri til að látast af barnsförum en vegna sjúkdóma eða slysa.

Það hefur sýnt sig að þvinguðum barnahjónaböndum fjölgar í kjölfar náttúruhamfara, á tímum átaka og þegar viðvarandi fæðuskortur ríkir. Fjölskyldur sem búa við sárafátækt, eða hafa misst heimili sín og fyrirvinnur vegna hamfara, eru líklegri til að gifta burt barnungar dætur sínar til að létta á útgjöldum fjölskyldunnar. Í sumum tilfellum eru stúlkurnar einfaldlega seldar í hjónaband svo hægt sé að kaupa mat.

Hvernig vinnur UN Women að afnámi þvingaðra barnahjónabanda?

UN Women vinnur að upprætingu þvingaðra barnahjónabanda með því að þrýsta á stjórnvöld að festa í lög hærri giftingaraldur, þjálfa þorpshöfðingja og mæðrahópa í að veita fræðslu um skaðlegar afleiðingar siðarins og styðja stúlkur sem leystar hafa verið úr slíku hjónabandi aftur til náms.