Konur eru 80% þeirra sem starfa í fataiðnaði. Flestar þeirra búa undir fátækramörkum. 

Neysla fólks hefur aukist umtalsvert síðustu áratugi, þó aðallega í efnameiri ríkjum heims. Því miður leggjast afleiðingar ofneyslu Vesturlandabúa á herðar þeirra sem búa við sárafátækt. Aukin mengun, landeyðing og erfiðisvinna við óboðlegar aðstæður eru þar á meðal. Fataframleiðsla er gríðarlega orkufrekur og mengandi iðnaður. Á síðustu 15 árum hefur framleiðsla tískufatnaðar tvöfaldast á sama tíma og hver flík er notuð í skemmri tíma.

Að meðaltali er ódýrum tískuflíkum fargað eftir að hafa verið notaðar í aðeins sjö til tíu skipti. 

  • 4% allrar vatnsnotkunar heims fer í bómullarræktun fyrir fataiðnaðinn
  • 20% vatnsmengunar er rakin til fataframleiðslu
  • 92 tonn af flíkum eru urðuð árlega í heiminum, eða um einn fullur ruslabíll á hverri sekúndu

Konur vinna láglaunastörf við lítið starfsöryggi í fataverksmiðjum. Karlar sem starfa innan iðnaðarins eru oftast í stjórnendastöðum, með hærri laun og meira starfsöryggi. Ítrekað hafa komið upp mál sem varpa ljósi á ömurlegt starfsumhverfi kvenna, þær löngu vaktir sem þær vinna, oft án salernispásu, og ofbeldinu sem þær verða fyrir af hendi yfirmanna. Þær lifa undir fátækramörkum og vinna án fastrar ráðningar eða réttinda, sem útsetur þær fyrir ofbeldi á vinnustað. Menntunarleysi og aðstæður þeirra gerir það að verkum að lítið er um aðra vinnu að fá.

Oft eru konur einu fyrirvinnur fjölskyldna sinna og þora ekki að tilkynna ofbeldið af ótta við að missa vinnuna. 

Hvernig vinnur UN Women að velferð kvenna í fataiðnaðinum?

UN Women vinnur náið með ýmsum framleiðendum að því að styðja við framgang ungra kvenna sem starfa innan fataiðnaðarins. Leiðtogaþjálfun starfskvenna er einn þáttur í verkefninu sem eykur möguleika þeirra á að vinna sig upp innan fyrirtækjanna. Með fræðslu og vitundarvakningu vinnur UN Women að því að tryggja starfskonum matarhlé, salernispásur og mannsæmandi laun.