15 milljón stúlkur á grunnskólaaldri eru ekki í skóla í dag

Menntun kvenna, sér í lagi í fátækari ríkjum heims, er talin vera grunnforsenda þess að raunverulegur árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Menntun kvenna hefur bein og jákvæð áhrif á lýðheilsu og efnahag ríkja og vinnur gegn sárafátækt og fólksfjölgun. Þess vegna hafa sérfræðingar ítrekað hvatt til þess að fjárfest sé í menntun kvenna, svo hægt sé að styðja fátækari þjóðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Vel menntaðar þjóðir búa við meiri hagsæld, hærri lífaldur og meira lýðræði en þjóðir þar sem menntunarstig er lágt.

Rannsóknir á afleiðingum náttúruhamfara í 125 löndum víða um heim sýna að í löndum þar sem konur hafa hlotið menntun fram yfir fyrstu fimm bekki grunnskóla er tíðni dauðsfalla töluvert lægri. 

Hvernig stuðlar menntun kvenna að árangri í loftslagsmálum?

Menntað fólk býr síður við fátækt og skort, á auðveldara með að sækja sér upplýsingar og er því líklegra til að geta brugðist við hættuástandi í tíma.

Menntuð samfélög eru einnig líklegri til að koma sér upp skilvirkum forvörnum gegn náttúruhamförum.

Þá sýna rannsóknir í löndum Afríku sunnan Sahara að sterk tengsl eru á milli tíðni malaríutilfella hjá börnum og menntunar móður – því meiri mentun sem móðir hefur, því minni líkur eru á malaríusmiti hjá barni. Með hækkandi hita af völdum loftslagsbreytinga mun tíðni malaríusmita margfaldast. 

Hvernig vinnur UN Women að aukinni menntun stúlkna og kvenna?

UN Women starfrækir verkefni sem styðja konur og stúlkur til náms, meðal annars á sviði forritunar, verkfræði og tækni. UN Women býður upp á hagnýtt nám fyrir konur á yfir 70 griðastöðum UN Women í flóttamannabúðum víða um heim. Þá styður UN Women stúlkur sem leystar hafa verið úr þvinguðu barnahjónabandi til náms og dreifir hreinlætisvörum til skólastúlkna, því hafi þær ekki aðgang að dömubindum eru yfirgnæfandi líkur á að þær detti úr námi um leið og þær komast á kynþroskaaldur.