Sárafátækt og ójöfnuður eru einn helsti hvati borgarastríða

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en í dag. Meira en helmingur þeirra 80 milljóna jarðarbúa sem eru á flótta í heiminum í dag, er á vergangi í eigin heimalandi.

Það má ekki vanmeta þátt loftslagsbreytinga í stríðsrekstri.

Loftslagsbreytingar hafa valdið átökum og stríðum víða um heim, einkum þó í Mið-Austurlöndum og í Afríku. Ríki með veika innviði og ólýðræðislega stjórnarhætti eru útsettari fyrir innri átökum. Þá hafa ríki tekist á vegna þverrandi auðlinda í Suður-Kínahafi.

Hver er tengingin milli vopnaðra átaka og loftslagsbreytinga?

Með breyttu veðurfari verður erfiðara fyrir stjórnvöld fátækra ríkja á að mæta þörfum fólks, m.a. þegar kemur að matvælaframboði, neysluvatni og orku. Þetta ýtir undir óánægju, örvæntingu og neyð íbúa en er jafnframt frjór jarðvegur fyrir hverskyns skæruhópa til að þrífast í. Átök og hamfarir knýja fólk á flótta.

Konur á flótta eru útsettari fyrir hverskyns ofbeldi, sér í lagi þær sem eru einstæðar mæður, fatlaðar eða óléttar.

Tíðni mæðradauða tvöfaldast einnig á tímum stríðsátaka vegna bágborinna aðstæðna. Konur sem fundið hafa skjól í flóttamannabúðum þurfa margar að glíma áfram við ofbeldi, skort og stanslausan ótta. 

Hvað gerir UN Women til að tryggja velferð kvenna á tímum átaka?

UN Women vinnur að því að tryggja að raddir kvenna heyrist í friðar- og sáttaumleitunum og starfrækir um 70 griðastaði í flóttamannabúðum fyrir konur og börn þeirra þar sem þær hljóta sálræna aðstoð, menntun og atvinnutækifæri, daggæslu fyrir börn sín, valdeflingu og öryggi. Þá dreifir UN Women nauðsynjavörum til kvenna á átakasvæðum.