Loftslagsbreytingar hafa mest áhrif á þau er hafa minnst um þær að segja.

Í samfélögum þar sem jöfnuður ríkir er lítill munur á fjölda dauðsfalla meðal kvenna og karla, en í ríkjum þar sem konur búa við skert réttindi eru konur allt að 14 sinnum líklegri til að láta lífið í kjölfar náttúruhamfara en karlar. Þar geta karlmenn einnig treyst á að hljóta forgang í björgunaraðgerðum. Tölurnar styðja við þessa sorglegu staðreynd.

Þegar flóðbylgja skall á Asíu árið 2004 voru konur 70% þeirra er létust og 90% þeirra er létust er fellibylur reið yfir Bangladesh árið 1991. Þá voru 70% þeirra er létust í jarðskjálfta í Nepal árið 2015 konur og börn.

Hvers vegna eru konur líklegri til að deyja í kjölfar náttúruhamfara?

 

Ástæðurnar fyrir þessu tengjast samfélagsstöðu kvenna. Víða hafa konur ekki aðgang að menntun og læra því aldrei að lesa. Ólæsi kemur í veg fyrir að konur geti aflað sér upplýsinga um yfirvofandi vá eða neyðarviðbrögð.

 

Í mörgum samfélögum eru konur bundnar yfir umönnun á börnum og eldri fjölskyldumeðlimum og eiga því erfitt um vik með að bjarga bæði sér og þeim þegar hætta steðjar að.

Hvernig komum við á jafnrétti?

 

Um allan heim beitir UN Women sér fyrir aukinni pólitískri þátttöku kvenna og veitir konum hagnýtt nám, atvinnutækifæri og leiðtogaþjálfun. Leiðtogaþjálfunin valdeflir konur til áhrifa í stjórnmálum með það að markmiði að stuðla að friði í heiminum.