Einstæðar konur eru tvöfalt líklegri til að búa við sárafátækt en einstæðir karlar

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á okkur öll en snerta okkur mismikið eftir búsetu, aldri, kyni, menntunarstigi og tekjum. Það eru sterk tengsl á milli hagsældar og áhrifa náttúruhamfara á líf og heilsu fólks.

Efnameiri ríki hafa fjármagn til að koma upp og dreifa áhrifaríkum forvörnum og viðbragðsáætlunum við hamförum, nokkuð sem fátækari ríki hafa ekki efni á að gera.

Fátækari ríki heims eru að auki verr í stakk búin til að bregðast við náttúruhamförum og veita aðstoð í kjölfar þeirra, sem eykur enn frekar á neyð íbúa. 

Hvaða áhrif hefur fátækt á líf kvenna á hamfarasvæðum?

Fólk sem býr við sárafátækt býr gjarnan við verri húsakost og á hættumeiri svæðum en þeir sem eru efnameiri, en konur eru í meirihluta þeirra sem búa við sárafátækt.

Með því að útrýma fátækt verður auðveldara fyrir fólk og þjóðir að bregðast við náttúruhamförum og veita sér bjargir í kjölfar þeirra.

Hvernig útrýmum við fátækt?

UN Women vinnur að útrýmingu fátæktar með því að auka aðgengi kvenna að lántöku, mörkuðum, landi og menntun.

Víða um heim býður UN Women konum í landbúnaði og matvælaræktun upp á frumkvöðlaþjálfun, hagnýt viðskiptanámskeið og aðstoð við að byggja upp eigin rekstur. Að auki þrýstir UN Women á stjórnvöld að tryggja konum erfðarétt og aukin réttindi á vinnumarkaði.