11 þúsund einstaklingar, mest konur og börn, deyja daglega vegna reyk- og kolefniseitrunar

Um þrír milljarðar einstaklinga búa í dag við óviðunandi aðstæður til matseldar og þurfa að reiða sig á kol eða tað við eldamennsku. Fyrir vikið er skóglendi nánast horfið í mörgum löndum. Þetta hefur í för með sér aukna hættu á aurskriðum þar sem land heldur ekki lengur vatni og í Malaví hafa aurskriður ítrekað lagt heilu þorpin í rúst á regntíma.

Brennandi viður á opnum eldstóðum gefur frá sér heilsuspillandi reyk sem veldur öndunarfærasjúkdómum hjá þeim sem verja flestum stundum í eldhúsum – konum og börnum þeirra. Rekja má 3,8 milljónir dauðsfalla árlega, eða tæplega 10.400 dauðsföll á dag, til reyk- og kolefniseitrunar. Meirihluti þeirra eru konur og börn.

Hvaða hlutverk spila hreinir orkugjafar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum?

Ódýr og sjálfbær orka kemur ekki aðeins í veg fyrir landeyðingu og ótímabær dauðsföll vegna heilsuspillandi loftgæða, heldur bætir lífsgæði til muna. Með sólarlampa geta börn til dæmis stundað heimanám eftir að skyggja tekur og með rafmagni geta konur knúið saumavélar sínar og þannig unnið fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Hvernig eflum við notkun sjálfbærra orkugjafa?

UN Women starfrækir verkefni sem veitir konum umhverfisvænar eldavélará svæðum sem hafa orðið illa úti vegna þurrka og landeyðingar, t.d. í Gana. Slíkar eldavélar hafa jákvæð áhrif á heilsu kvenna og sparar þeim tíma sem annars færi í að afla eldiviðar. Sumar konurnar hafa séð sóknarfæri í þessum nýju eldavélum og sett á laggirnar eigin veitingaþjónustu sem gerir þeim kleift að sjá fyrir fjölskyldum sínum.