fbpx

Kynbundinn launamunur er rán um hábjartan dag

Heim / Fréttir / Kynbundinn launamunur er rán um hábjartan dag

Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var settur í 61. skipti á mánudaginn í Allsherjarþinginu í New York. „Karlremba hindrar framgang kvenna og skaðar okkur öll,“ sagði António Guterres, aðalritari SÞ er hann setti fundinn og sagði valdeflingu kvenna vera brýnasta verkefni okkar tíma. „Ég sem karlmaður mun beita mér persónulega fyrir valdeflingu kvenna en við þurfum alla karlmenn með okkur í lið. Heimurinn þarf fleiri kvenleiðtoga og fleiri karlmenn sem beita sér fyrir kynjajafnrétti,“ sagði Guterres.

Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women benti á að rúmlega helmingur allra vinnandi kvenna um allan heim, og í mörgum löndum um 90% kvenna, vinni ólaunuð störf. Sem dæmi vinna 190 milljónir kvenna ólaunuð störf á Indlandi einu og sér auk þess sem hún beindi sjónum að mikilvægi þess að uppræta kynbundinn launamun. „Konur þéna statt og stöðugt minna en karlmenn – launamunurinn er ekkert annað en rán um hábjartan dag,“ sagði Phumzile.

Lesa meira

Fundirnir voru gríðarlega fjölbreyttir og rætt var um hvernig megi jafna kynjabilið og efnahagslega valdeflingu kvenna í öllum sölum, skúmaskotum, göngum og kaffiteríum bygginga SÞ í New York í dag. Á einum þeirra var fjallað um þann áætlaða fjárhagslega kostnað sem ríki bera vegna ofbeldis gegn konum og stúlkum þar sem yfirmenn heilbrigðisráðuneyta bæði Egyptalands og Jórdaníu sögðu frá nýlegum samantektum um stöðu ríkjanna.

Mikilvægi kynjaðrar fjárlagagerðar var rædd á öðru erindi þar sem sérfræðingar fjármálaráðuneyta  Kenýa og Marokkó ræddu mikilvægi þess að kynja hagstjórnir og fjárlagagerðir.  Agnes Odhiambi sérfræðingur keníska fjármálaráðuneytisins sagði kynjaða fjárlagagerð nauðsynlegt verkfæri í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti þar sem hún gerir kynjamuninn sýnilegan og færir sönnur fyrir kynjamismunun. Fram kom líka í hennar máli að árið 2000 hefði kynjun fjárlaga hafist í Kenýa og í dag  eru 30% af heildarfjárlögum keníska ríkisins varið í konur og börn.

Dagskrá dagsins endaði svo í Allsherjarþinginu þar sem íslenski jafnlaunastaðallinn (Global Equal Pay Platform of Champions) var kynntur að viðstöddu fjölmenni. Leikkonan Patricia Arquette, fótboltastjarnan og fyrrum heimsmeistari í fótbolta, Abby Wambach og Anannya Bhattacharjee, frá verkalýðsfélagi vefnaðarverkafólks á Indlandi sátu í panel og ræddu mikilvægi þess að útrýma kynbundnum launamun. Wambach sagði til að mynda hafa unnið fleiri heimsmeistaratitla í fótbolta heldur en Ronaldo, samt ætti hún oft í vandræðum með að borga reikningana.

Þorsteinn Víglundsson, jafnréttismálaráðherra kynnti jafnlaunastaðalinn við góðar undirtektir og Patricia Arquette táraðist í erindi sínu og þakkaði Íslandi sérstaklega fyrir sinn hlut. „Ég er svo þakklát fyrir lönd eins og Ísland sem grípa óhikað til róttækra aðgerða í jafnréttismálum, konur heimsins þurfa sárlega á því að halda,“ sagði hún.  Einnig átti Bergur Ebbi Benediktsson stórleik og flutti beitt erindi þar sem hann benti á hve ótrúlegt væri að enn þann dag í dag, árið 2017, þætti það róttæk hugmynd að ríkisstjórn væri búin að einsetja sér að eyða kynbundnum launamun og hvatti alla til að spýta í lófana.

Nýtt myndband UN Women var einnig  frumflutt á viðburðinum – skoða hér #stoptherobbery

Snjóstormurinn Stella setti dagskrá fundarins 14. mars úr skorðum og féll hún niður. Starfskonur landsnefndarinnar bíða spenntar eftir nýjum og spennandi röddum, sögum og sjónarhornum á efnahagslega valdeflingu kvenna á miðvikudag þegar Stella hefur haft sig hæga.

Lesa minna

Related Posts