Allur veruleiki minn breyttist á óskiljanlegan hátt þegar ég var sjö ára. Ég var ekki lengur velkomin í lífi mömmu og nýi kærastinn hennar var sú manngerð sem naut þess að hafa stjórn á fólkinu á heimilinu með tilfinningalegum hryðjuverkum.

Viðvarandi andlegt ofbeldi varð hluti af uppeldi mínu. Áreiti, ofsóknir, niðurrif, höfnun og stanslaust tilfinningafokk. Ef ég kvartaði eða reyndi að strjúka til pabba eða bara sagði hvernig mér leið, var mér refsað með ásökun og plantað í mig sektarkennd gagnvart mömmu. Þegar skóli eða kennarar urðu varir við vanlíðan og breytingar á hegðun minni var ég send til skólastjórans sem spurði mig einfaldlega hvað væri eiginlega að mér. Ég gat ekki svarað.

Við áttum heima í litlum bæ. Við fimmtán ára aldur þegar ég fór að heiman var ég orðin tryllt úr tilfinningarlegum sársauka, reiði og sjálfsniðurrifi. Ég geri mig ekki ábyrga fyrir því að hafa verið beitt ofbeldi af þeim manni sem ég valdi að vera með mörgum árum seinna. Ég trúi því samt að niðurbrotið í æsku hafi haft áhrif á hvernig ég brást við ofbeldinu þegar það byrjaði. Ég lamaðist af vanmætti inni í sambandinu. Hann sagði alltaf að ég væri ástæðan fyrir því sem hann gerði og ég hafði ekkert tilfinningalegt mótvægi við þá ranghugmynd hans sem ég upplifði að samfélagið staðfesti ef ég reyndi að segja frá. Í dag hangir batavon mín á því að ég útskýri ekki tilefni eða ástæður ofbeldis á mér eða öðrum. Batavon mín fer saman við þá hugsun að ofbeldið er alltaf tilhæfulaust. Líka þegar það er í nánu sambandi. En ég þarf að minna mig á það, aftur og aftur. Þess vegna vil ég segja frá nokkru af því sem gerðist.

Barnið hans var hjá okkur í sinni fyrstu helgarheimsókn. Hann reiðist einhverra hluta vegna og kýlir mig í andlitið þar sem ég stóð upp við bekk og hélt á barninu í fanginu. Hann hefði getað hæft barnið. Ég lét sækja barnið strax. Þetta var í eina skiptið sem hann sló mig í andlitið en oftast barði hann mig í handleggina þar til þeir bólgnuðu svartir og bláir upp, reif í hárið á mér eða sló mér í veggi eða gólf. Í einhverju skapofsakastinu braut hann rúðu í anddyri sameignar í húsinu sem við bjuggum í. Ég sá ekki til þess en hann sagði eftir á að hurðin hefði skellst vegna vindhviðu og þess vegna hefði rúðan brotnað. Ég efaðist um það af því hann hafði áður brotið rúðugler í hurðum inni í íbúðinni í reiðikasti. Vitni í næsta stigagangi kom að mér og sagðist hafa séð hann brjóta rúðuna. Ég þurfti að sjálfsögðu að borga fyrir viðgerðina. Ég þurfti líka að bæta fyrir alla símana, sjónvarp og tölvuna sem hann gereyðilagði. Ég sagði oftast ekki satt frá því hvernig hlutirnir hefðu eyðilagst. Ég skammaðist mín bara og borgaði eða keypti nýtt ef ég hafði efni á því.

Frá upphafi sambands okkar var kynlíf á hans forsendum. Hvað við gerðum og hvenær. Ég vaknaði stundum við það á nóttunni að hann var byrjaður eða næstum búin. Seint í okkar sambandi var ég ólétt af barni okkar, þegar hann kemur heim til mín að nóttu eftir að hafa verið að drekka. Á þeim tíma bjó hann ekki á heimilinu en kom og fór nokkuð eins og honum þóknaðist. Ég var sofandi en hann vakti mig. Hann skipar mér að afklæðast og fara á fjóra fætur. Ég mótmælti ekki og sýndi engan mótþróa, hann nauðgaði mér í endaþarm. Hann hafði flutt aftur inn á heimilið með fögur fyrirheit en hafði samt fengið þá hugmynd að flytjast erlendis. Ég var undir miklu álagi á þessum tíma og nefndi það við hann að ég væri ekki viss um að það væri góð hugmynd að hann færi erlendis svona skömmu eftir að barnið fæddist. Hann snöggreiddist og spurði hvort ég væri að efast um karlmennsku hans svo ég hljóp inn á baðherbergi og læsti að mér. Það var orðið vanalegt varnarviðbragð hjá mér en hann þoldi það ekki að ég læsti og barði á hurðina og öskraði að ég ætti að koma út á stundinni.

Barnið vaknaði í öðru herbergi og fór að gráta svo ég opnaði og tróð mér framhjá honum inn í herbergi til barnsins. Hann elti mig inn í herbergið, tók barnið af mér og lagði það í barnarúmið og þvingaði mig niður í hjónarúmið og hélt mér þannig að ég gat ekki hreyft mig. Ég hélt í smá stund að hann ætlaði að nauðga mér en hann dró mig út úr herberginu og lokaði barnið þar inni. Þvingaði mig niður í gólf og hélt fyrir vitin á mér þannig að ég átti erfitt með að anda. Það eina sem ég gat hugsað var að komast til barnsins sem grét. Ég veit ekki hvað þessi árás stóð lengi af því tíminn stóð í stað og teygðist og skrapp saman til skiptis. Ég heyrði eitthvað bresta inni í mér sem ég veit ekki ennþá hvað var. Ég var alveg hætt að hugsa þegar hann sleppti mér og ég hljóp inn til barnsins og tók það í fangið. Þegar barnið var sofnað reyndi ég að segja manninum að ég vildi fara. Ég vildi bara tala við fjölskyldu mína. Þá fór hann inn í eldhús og náði í beittan hníf og sagðist drepa mig ef ég talaði við einhvern.

Vikuna eftir lék ég leikrit, gerði allt til að hann kæmist erlendis. Hann fór. Eftir þetta kom hann einu sinni inn á heimili mitt undir fögrum fyrirheitum. Hann var fluttur af lögreglunni út af heimilinu í síðasta skipti eftir stutta dvöl þegar barnið okkar var eins árs. Hann birtist í lífi okkar aftur nokkrum árum síðar. Í dag notar hann barnið og rétt sinn til að umgangast barnið til að fá sínu framgengt með öllum ráðum. Ég hef greint frá ofbeldissögu mannsins bæði gagnvart mér og börnum hjá sýslumanni og óskað þess að tekið verði tillit til áfallasögu barnsins í samskiptum við föður. Yfirvaldið hefur beinlínis úrskurðað og sagt að ég hagi mér fáránlega og það sé mér að kenna að barninu mínu líður illa, að ég eigi að vera samvinnufús með kröfum föður um barnið. Þetta er alger martröð. Martröð æsku minnar.

Ég er ekki tekin trúanlega. Ég hef ekki vald í dag til að vernda barnið mitt og heimili fyrir ofbeldi en við sitjum uppi með afleiðingarnar. Kvíða, tilfinningavanda, áfallastreitu, brotið traust, ótta, samskiptavanda og tapaða trú á lífið. Biðina eftir næstu árás með hjálp yfirvalda. Ég setti ofbeldinu mörk og neita að taka ábyrgð á hegðun mannsins en yfirvöld og samfélagið heimila að það viðgangist á grunni þess að kalla það umgengisdeilu. Sem móðir og kona í samfélagi á ég að uppfylla skyldur mínar gagnvart föður umfram það að verja sjálfa mig og fjölskyldu mína fyrir ofbeldi.

*Nafni hefur verið breytt