„Ég man vel eftir deginum sem barnæsku minni lauk – henni lauk mjög skyndilega. Ég var á leiðinni heim af markaðnum þegar tilvonandi eiginmaður minn rændi mér. Ég man að ég grét alla þá nótt. Heima hjá honum. Ég hafði aldrei séð þennan mann áður, en vissi einhvern veginn að ég yrði neydd til að giftast honum. Daginn sem hann rændi mér, var ég nýorðin 15 ára.“

Í dag er Giang Thi rúmlega sextug og á sex börn með manninum sem rændi henni, beitti hana kynferðisofbeldi og varð eiginmaður hennar.

„Þegar elsta barnið mitt var sextán ára og yngsta sautján mánaða gamalt, yfirgaf eiginmaður minn mig og börnin til að giftast konu í öðru þorpi. Hann kom samt við öðru hvoru til að biðja mig um peninga og gekk í skrokk á mér. Eitt skiptið handleggsbraut hann mig og ég var óvinnufær í margar vikur.“

Giang Thi tilheyrir etnískum minnihlutahópi sem býr að meirihluta til sveita í fjallengi norðurhluta Víetnam. Um 27% kvenna sem tilheyra etnískum minnihlutahópum í Víetnam hafa verið giftar á barnsaldri. Fyrir vikið eru stúlkur og konur eins og Giang Thi, sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi og mismunun. Þær skortir grunnheilbrigðis- og félagslega þjónustu auk þess sem þær skortir atvinnutækifæri og aðgang að vinnumarkaði. Í ljósi þess hve ungar þær giftast, fá þær ekki tækifæri til að mennta sig og verða fjárhagslega sjálfstæðar.