UN Women

unwomen_logoKæru félagar og velunnarar,


Fyrsti dagur þessa árs; 01.01.11 var stór dagur fyrir alla sem annt er um að bæta réttindi kvenna um heim allan er UNIFEM sameinaðist þremur systurstofnunum sínum innan Sameinuðu þjóðanna


og hlaut nafnið Jafnréttisstofnun Sþ eða UN Women (United Nations Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women).  Þetta er stórt skref fyrir stofnunina og tíðindi innan alþjóðasamfélagsins en loksins fá málefni kvenna aukið vægi innan Sþ.


Michelle Bachelet, fyrrum forseti Chile tók við starfi framkvæmdastýru stofnunarinnar og er óhætt að segja að mikil von sé bundin við ráðningu hennar. Henni hefur verið falið það verkefni að tryggja að stofnunin fái tvöfalt fjárframlag frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til að gera UN Women kleift að takast á við þau viðamiklu verkefni sem stofnunin stendur frammi fyrir.


Helstu áherslur UN Women verða áfram afnám ofbeldis gegn konum, aukin mannréttindi, friður og öryggi, leiðtogaþjálfun og þátttaka kvenna í atvinnulífinu, efnahagsleg valdefling kvenna ásamt því að vinna áfram að þúsaldarmarkmiðunum.


UN Women á Íslandi vinnur nú hörðum höndum að nýrri heimasíðu sem verður tilbúin á næstu dögum. Við hlökkum til að takast á við þessar breytingar og við munum áfram vinna að vitundavakningu og réttindagæslu hér á landi og efla Systralagið, en allt fjármagn sem safnast á Íslandi rennur beint í Styrktarsjóð UN Women (áður UNIFEM) til afnáms ofbeldis gegn konum.


Stuðningur ykkar við málstað UN Women, áður UNIFEM, er ómetanlegur og vonum við svo sannarlega að þið munið halda áfram að styðja við mannréttindabaráttu systra okkar víða um heim.