UN Women hét áður UNIFEM en í janúar 2011 sameinaðist UNIFEM þremur systurstofnunum sínum innan SÞ og hlaut nafnið UN Women.

UN Women fer með umboð SÞ til að vinna að jafnrétti kynjanna og stuðla að því að stefnumótun í þróunarstarfi taki mið af jafnréttissjónarmiðum og réttindum kvenna í samræmi við alþjóðleg markmið.

UN Women veitir tæknilegan og fjárhagslegan stuðning til verkefna sem ætlað er að efla réttindi kvenna, þátttöku þeirra í stjórnmálum, efnahagslegt sjálfstæði og verkefni sem stuðla að afnámi ofbeldis gegn konum og stúlkum.

Starfsemi UN Women er eingöngu byggð á frjálsum fjárframlögum aðildarríkja SÞ, einkaaðilum og frá frjálsum félagasamtökum.

Aðalstöðvar UN Women eru í New York en starfsfólk, sjálfboðaliðar og velunnarar starfa um allan heim. Þá annast svæðisskrifstofur skipulagningu og eftirlit með verkefnum í þeim löndum sem þiggja aðstoð UN Women. Verkefni UN Women eru unnin í samræmi við svæðisbundinn veruleika í Afríku, Asíu og Kyrrahafinu, Suður Ameríku og Karíbaeyjum, Mið- og Austur Evrópu og fyrrverandi Sovétlýðveldum.

Landsnefndir UN Women starfa í 15 löndum að því að vekja athygli almennings á þörfum kvenna í fátækum löndum og starfi UN Women, afla fjár til starfsins og hvetja ríkisstjórnir sínar til að taka þátt í því. UN Women á Íslandi er ein slíkra landsnefnda.