Nemendur Ingunnarskóla afhenda UN Women 100 þúsund krónur

 

Nemendur á unglingastigi í Ingunnarskóla efndu til teiknisamkeppni um jólamerkimiða fyrr í haust. Átta miðar voru kosnir, prentaðir og seldir til styrktar góðu málefni. Eftir að hafa fengið fræðslu Ungmennaráðs UN Women fyrr í haust ákváðu nemendur að láta allan ágóða renna til verkefna UN Women.

Iðunn Ingvarsdóttir, nemandi í 8.bekk afhenti ágóðann til Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýrunnar okkar í morgun við hátíðlega athöfn í Ingunnarskóla. 

Söfnunarfénu verður varið í námsstyrki til þrjátíu stúlkna í Malaví sem leystar hafa verið úr þvinguðu barnahjónabandi. Við hjá UN Women á Íslandi þökkum nemendum á unglingastigi í Ingunnarskóla kærlega fyrir ómetanlegan stuðning við að veita ungum stúlkum í Malaví bjarta framtíð.

 
Hér má sjá framlag nemenda Ingunnarskóla ásamt fallegu gjafamerkimiðunum sem voru seldir til styrktar UN Women.