Efnahagsleg valdefling kvenna í brennidepli á fundi Kvennanefndar SÞ í ár

Starfskonur landsnefndarinnar eru mættar á 61. fund Kvennanefndar  Sameinuðu þjóðanna (CSW61) í New York þar sem sjónum verður beint að efnahagslegri valdeflingu kvenna.

Fundurinn er einn af fjölmennustu og viðamestu fundum heims þar sem þjóðarleiðtogar, frjáls félagasamtök, aðilar einkageirans, stofnanir SÞ og meðlimir grasrótarhreyfinga hvaðanæva úr heiminum koma saman, deila reynslu sinni og bera saman bækur sínar. Í ár verður rætt um stöðu og réttindi kvenna á vinnumörkuðum og hvaða leiðir séu greiðfærastar við að tryggja konum óheft aðgengi að atvinnu, tekjuöflun og efnahagslegri valdeflingu.

Efnahagsleg valdefling kvenna gerir ekki eingöngu konum og stúlkum kleift að blómstra heldur samfélaginu í heild sinni. Við lifum á breyttum tímum atvinnulífs og vinnumarkaða, á tímum nýsköpunar, alþjóðvæðingar og fólksflutninga. En á sama tíma stendur heimsbyggðin frammi fyrir loftslagsbreytingum, gríðarlegum fólksflótta og neyð, auknu vinnumansali og efnahagslegu kynjamisrétti. Það er allra hagur að skapa samfélög þar sem fullkomið kynjajafnrétti ríkir. Þar sem konur eru efnahagslegar valdefldar og veitt jöfn tækifæri á við karlmenn er samfélagið heilbrigt og sjálfbært. Með því að útrýma kynbundnum launamun og dreifa þeirri ábyrgð sem felst í að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum, sem yfirleitt falla í skaut kvenna og stúlkna, og fjárfesta í þeim mannauði sem konur búa yfir strax í dag - er talið að verg þjóðarframleiðsla heimsins muni aukast um 12 trilljónir bandaríkjadollara fyrir árið 2025.

Sameinumst um sjálfbæran heim með kynjajafnrétti að leiðarljósi.

Hægt verður að fylgjast með framgangi mála á fundum á Facebook og Twitter-síðu okkar. Myllumerkið fyrir fundinn er #CSW61