Unnsteinn Manuel og Eva María nýir verndarar UN Women

rsz_eva_og_unnsteinnUN Women á Íslandi kynnti nýverið nýja verndara samtakanna; Evu Maríu Jónsdóttur og Unnstein Manúel Stefánsson. Þau taka við af leikkonunni Unni Ösp Stefánsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, mannfræðiprófessor sem sinnt hafa hlutverki verndara undanfarin ár.

Unnsteinn og Eva María tóku við keflinu í Ljósagöngu UN Women þann 25. nóvember síðastliðinn á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Yfirskrift göngunnar í ár var konur á flótta þar sem meðal annars var vakin athygli á jólagjöf UN Women í ár sem er sæmdarsett fyrir konur í Írak sem inniheldur helstu nauðsynjar sem gera konum kleift að halda í sjálfsvirðinguna og reisn í þessum skelfilegu aðstæðum.

Þegar verndarar UN Women eru spurðir hvers vegna þeir hafi ákveðið að taka hlutverkið að sér segir  Unnsteinn það vera mikilvægt að fá fleiri karlmenn til að taka þátt í baráttu samtaka eins og UN Women. „Kynbundið ofbeldi og misrétti kvenna er oftast af karlavöldum. Þess vegna þurfum við ekki síður að taka þátt í umræðunni. Ég held það sé mikilvægt að skoða af hverju mannskepnan beitir ofbeldi. En ekki síður hef ég mikla trú á framtíðinni og hvernig menntun og þekking muni breyta kjörum kvenna í t.d. þriðja heiminum. Og þar með breytist allur heimurinn,“ segir Unnsteinn um nýtt hlutverk sitt sem verndari sem hann tók nýlega að sér ásamt Evu Maríu Jónsdóttur sem bætir við „Að taka afstöðu með mannúð, mannréttindum og mannlegri reisn er nauðsynlegt. Ef tækifæri býðst til að gera það á áþreifanlegan hátt er maður fljótur að þiggja það og stökkva um borð með samtökum eins og UN Women.“

Aldrei hafa fleiri konur verið á flótta í heiminum. Konur í Mosul og kring flýja nú grimman veruleika og búa við skelfilegar aðstæður. UN Women samhæfir aðgerðir hjálparsamtaka og tryggir konum og stúlkum kvenmiðaða neyðaraðstoð til dæmis með dreifingu sæmdarsetta. Tekið er mið af þörfum kvenna eftir aðstæðum og er innihald sæmdarsettanna í takt við þær þarfir. UN Women dreifir nú sæmdarsettum til kvenna á flótta í Írak sem innihalda dömubindi, sápu, tannbursta, tannkrem, teppi, barnaföt, tvo pakka af bleium, uppþvottasápu, handklæði og vasaljós. Ein jólagjöf er andvirði sæmdarsetts fyrir konu á flótta. Jólagjöfin kostar 3.990 krónur. Kaupa sæmdarsett.