Mig dreymir um að fara í háskóla

jordan_sgvisitszaatari_march2016

Zaad Al-khair er 17 ára sýrlensk flóttakona sem býr í Za‘atari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Hér er sagan hennar.
„Daginn sem ég flúði til Jórdaníu hafði öflugum sprengjum rignt yfir hverfið mitt. Þær sprungu mjög nálægt húsinu mínu, það myndaðist mikið hættuástand. Við höfðum enga aðra kosti en að flýja heimilið. Á því augnabliki sem þessi hræðilega skelfing og fát myndaðist fundum við ekki bræður mína og systur. Það er það erfiðasta sem ég hef upplifað hingað til, að skilja þau eftir, vitandi ekki hvar þau voru stödd. Nokkru síðar komumst við að því að annar bróðir minn hafi dáið í sprengingunum. Mamma mín var í öngum sínum af sorg. Margar mæður syrgðu þennan dag.
Ég vona svo innilega að stríðinu ljúki sem fyrst svo við getum snúið aftur heim til Sýrlands og hitt aftur hinn bróður minn og systur. Ég get ekki beðið.
Zaad Al-khar flúði ásamt foreldrum sínum til Jórdaníu í Za´atari flóttamannabúðirnar þar sem hún býr í dag. „Þegar ég kom fyrst í Za´atari fór ég aftur í skóla og eignaðist fljótt nýja vini. Ég kem daglega í griðastaði UN Women þar sem ég hitti nýju jórdönsku og sýrlensku vini mína. Eftir að við urðum 15 ára hafa reyndar margar vinkvenna minna þurft að hætta í skólanum og verið giftar. Margar þeirra eiga meira að segja líka börn. Margir hafa spurt mig hvers vegna ég sé ekki búin að giftast, en mér finnst ég enn of ung. Sem betur fer styður fjölskyldan mín við mig og vill að ég klári fyrst skólann. Mig dreymir líka um að fara í háskóla.
Mamma og pabbi vinna bæði á griðastað UN Women í búðunum, mamma býr til alls konar handverk og pabbi kennir skartgripagerð. Ég vinn með sem blaðamaður fyrir fréttatímarit Za´atari búðanna, safna upplýsingum og æfi mig um leið í ensku. Ég er búin að læra ensku hér á griðastað UN Women og langar að verða túlkur. Einn daginn ætla ég að segja heiminum sögu Sýrlands og hvað í raun gerðist.“
Ljóst þykir að því lengur sem átökin í Sýrlandi standa yfir, og dvöl flóttamannanna lengist, eru meiri líkur á því að aðstæður kvenna og stúlkna versni.

[show_more more="Lesa meira" less="Lesa minna" color="#009ddc"]1.4 millljónir sýrlensks flóttafólks er í Jórdaníu, ýmist á Za´atari flóttamannabúðunum eða á vergangi. Za´atari flóttamannabúðirnar eru orðnar fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu og þar búa tæplega 80.000 manns á 5,2 km2 landssvæði. Konur eru helmingur íbúa búðanna en konur og börn eru samtals 80% hluti íbúa. Lífsskilyrðin eru erfið í búðunum, þar ríkir fátækt og skortur á grunnþjónustu.
Sýrlenskar flóttakonur eiga erfitt uppdráttar í flóttamannabúðum. Þær hafa takmarkaðan aðgang að nauðsynlegum hjálpargögnum og búa við skert atvinnutækifæri. Margar hverjar fara ekki frjálsar ferða sinna nema með karlkyns fjölskyldumeðlim sér við hlið. Það erfiðar konum við atvinnuþátttöku innan flóttamannabúðanna, við að mennta sig og taka þátt í félagsstarfi.
UN Women hefur undanfarin þrjú ár starfrækt nokkurskonar griðastaði fyrir konur og börn í fjórum flóttamannabúðum í Jórdaníu þ.á.m í Za´atari búðunum. Á griðastöðunum er tvö hundruð manns veitt launuð atvinnu á svæðinu sem þjónustar aðra íbúa búðanna og nær til 1500 manns í hverjum mánuði.
Fyrir tilstilli starfs UN Women í flóttamannabúðunum hafa konur og stúlkur öðlast tækifæri til að afla sér þekkingar og starfsþjálfunar svo að þær geti framfleytt sér og fjölskyldum sínum. Athvarfið samanstendur af níu gámum og er rekið í samstarfi við konurnar sem búa í búðunum. Þar fer fram símenntun fyrir konurnar og daggæsla fyrir börn þeirra, þar gefst þeim tækifæri á að leggja stund á hagnýtt nám á borð við nám í ensku, frönsku, mósaíkgerð, íþróttir og myndlist sem dæmi.
Komið hefur verið upp klæðskerastofu, hárgreiðslustofu og barnaheimili en á saumastofunni eru m.a. saumuð burðarrúm og ungbarnaföt fyrir sjúkrahús búðanna. Um 800 konur nýta sér þjónustu athvarfsins í hverjum mánuði.
Á griðastöðunum gefst konunum einnig kostur á að sækja um smærri lán í ákveðinn sjóð ef upp koma heilsutengd neyðartilvik. Sjá sjóður er fjármagnaður með listmunum sem sem konurnar skapa og selja. Allur ágóði listmunasölunnar rennur í neyðarsjóðinn.
Konurnar á griðastöðunum hljóta einnig pólitíska valdeflingu en kosið hefur verið í kvennanefnd innan búðanna sem situr í „borgarstjórn“ flóttamannabúðanna. Helstu markmið kvennanefndarinnar er að þjóna hlutverki eins konar málsvara kvenna í búðunum og koma á framfæri sjónarmiðum ásamt áhyggjuefnum kvenna í Za´atari.
Fyrir utan efnahagslega valdeflingu er starfsemin mikilvæg fyrir sjálfstraust kvenna og stúlkna. Margar flóttakvennanna sem sótt hafa athvarf UN Women hafa fundið von, öryggi og gleði í fyrsta skipti eftir hörmuleg átök og upplifanir. Þess utan stuðlar vinnuframlag kvennanna að nýju viðhorfði um hlutverk kynjanna innan fjölskyldunnar. Á griðastöðunum bindast konurnar nýjum vináttuböndum, brjótast út úr einangrun, finna aftur tilgang, læra nýja iðn og endurskapa eigin sjálfsmynd. Konurnar eru stoltar af því að vera fyrirvinna heimilisins og með því að taka þátt í verkefnum UN Women standa þær fyrir breytingum í eigin samfélagi.


 [/show_more]