Opnunarhátíð UN Women í New York

dsc02742„Þegar við munum horfa tilbaka til ársins 2011, munum við sjá að það markaði nýtt upphaf fyrir kynjajafnrétti,“ fullyrti Michelle Bachelet, framkvæmdastýra UN Women og fyrrum forseti Chile á opnunarhátíð UN Women við mikinn fögnuð gesta og áhorfenda.

Framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, Inga Dóra Pétursdóttir var viðstödd opnunarhátíðina og sagði mikinn kraft og von hafa einkennt kvöldið.
,,Kvennahreyfingar um allan heim og frjáls félagasamtök hafa barist fyrir því að litið sé á brot á réttindum kvenna sem mannréttindabrot og fyrir aukinni áherslu Sþ á jafnréttismálum og það var ótrúleg upplifun að fagna þessu mikilvæga og jafnvel risa stóra skrefi með þessum kraftmiklu konum.“

Það var mikið um dýrðir á opnunarhátíð hinnar nýju stofnunnar og er óhætt að segja að hátíðin var stjörnum prýdd. Fréttakonan JuJu Chang og þáttastjórnandi Good Morning America var kynnir kvöldsins. Ban Ki-moon, aðalritari Sþ útskýrði mikilvægi þessarar nýju stofnunnar á einfaldan hátt: ,,Að styðja við bak kvenna er ekki einungis rétt, heldur er það snjallt. Jafnvel það snjallasta sem við munum nokkurn tímann gera.“


Óskarverðlaunaleikkonan og velgjörðarsendiherra UN Women; Nicole Kidman hélt stutta tölu og kallaði þessa stund sögulega. Geena Davis; sem einnig er óskarsverðlaunahafi fjallaði um mikilvægi þess að bæta ímyndir kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum.
,,Rageena2nnsóknir okkar sýna að frá árinu 2006 til 2009 var ekki eitt einasta kvenhlutverk í fjölskyldumyndum sem sýndu konur í forystuhlutverki á sviði vísinda, laga, stjórnmála né viðskiptalífsins.“ Geena Davis lagði áherslu á að þessu þyrfti að breyta því ,,hvaða skilaboð erum við að senda stúlkum og drengjum ef stúlkur og konur eru ekki sýnilegar í sjónvarpi. Við trúum því sem við sjáum,“ sagði hún og tók undir með Nicole Kidman; að loksins væri hægt að gera meira fyrir konur við mikinn fögnuð. Þá steig á svið Cristina Spánarprinsessa ásamt Ted Turner stofnanda CNN og söngkonan Shakira sendi UN Women sínar bestu kveðjur.Miklar vonir eru bundnar við UN Women og framkvæmdastýruna Michelle Bachelet, en hún hefur fengið það viðamikla verkefni að rúmlega tvöfalda núverandi framlög til UN Women úr 200 milljónum dollara í hálfa milljón.

Íslenska landsnefndin mun fagna þessari sögulegu breytingu 8. mars næstkomandi í miðbæ Reykjarvíkur kl. 18.15. Við hvetjum alla til þess að mæta og fagna þessum tímamótaviðburði með okkur. Nánari upplýsingar um hátíðarhöldin má finna á Fésbókar síðu okkar www.facebook.com/unwomen.nc.iceland.