Við neyðarástand ýmist vegna stríðs eða náttúruhamfara breytist líf fólks á hamfarasvæði, á augabragði. Fólk týnir lífi, særist líkamlega og/eða andlega, missir heimili sín og inniviðir samfélagsins hrynja. Við slíkt neyðarástand er mikilvægt að hafa í huga að neyðarástandið sem myndast hefur ólík áhrif á líf kvenna og karlmanna.

Í neyð eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi. Sextíu prósent kvenna sem láta lífið við barnsburð eða á meðgöngu eru konur sem búa á hamfarasvæðum ýmist vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara. Stúlkur eru einnig rúmlega helmingi líklegri til að detta úr námi heldur en strákar auk þess sem konum er yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð. UN Women starfar á vettvangi í þágu kvenna, sinnir samræmingarhlutverki hjálparsamtaka, tryggir að raddir kvenna fái að heyrast og kvenmiðar neyðaraðstoð.

UN Women dreifir sæmdarsettum til kvenna sem innihalda dömubindi og aðrar nauðsynjar sem gera konum og stúlkum kleift að halda í virðingu sína og reisn. Tekið er ávallt mið af þörfum kvenna eftir aðstæðum og er innihald sæmdarsettanna í takt við þær þarfir.