fbpx

UN Women á Íslandi í hópi með Bill and Melinda Gates Foundation

Heim / Fréttir / UN Women á Íslandi í hópi með Bill and Melinda Gates Foundation

Top 5 donorsSérstaklega er minnst á glæsilegan árangur UN Women á Íslandi á sviði fjáröflunar í nýrri ársskýrslu UN Women fyrir árið 2021. Það ár sendi landsnefndin út hæsta fjárframlag allra tólf landsnefnda sjötta árið í röð, óháð höfðatölu. UN Women á Íslandi er því einn helsti styrktaraðili verkefna UN Women á heimsvísu.

Í ársskýrslu UN Women kemur fram að stofnunin safnaði 556,3 milljónum bandaríkjadala  frá styrktaraðilum sínum árið 2021. Þetta er hæsta fjárhæð sem stofnunin hefur fengið til verkefna sinna frá upphafi og gerir henni kleift að halda áfram að vinna að jafnrétti öllum til handa.

Í skýrslunni er helstu styrktaraðilum þakkaður stuðningurinn, þeirra á meðal er íslenska landsnefndin sem sett er í sama flokk og einkafyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á borð við Alipay Foundation og Bill og Melinda Gates Foundation.

9.590 Íslendingar helstu stuðningsaðilar jafnréttis um allan heim

UN Women á Íslandi er ein tólf landsnefnda UN Women. Landsnefndir vinna að því að vekja athygli almennings á starfi UN Women og stöðu kvenna um allan heim, afla fjár til starfsins og hvetja ríkisstjórnir sínar til að taka þátt í því.

Eitt helsta markmið UN Women á Íslandi er að safna fjármagni til þess að styðja við öll þau mikilvægu verkefni UN Women á heimsvísu. Þetta gerir landsnefndin með ýmsum fjáröflunarleiðum, en þó einna helst með stuðningi okkar tryggu Ljósbera, sem eru hjartað í starfisamtakanna.

Þó einstakur árangur UN Women á Íslandi sé fagnaðarefni, sýnir það jafnframt hversu fjársvelt stofnunin og verkefni hennar eru. Ljósberar UN Women á Íslandi eru um 9.590 talsins og er framlag þessara einstaklinga og fyrirtækja í sama flokki og framlög ríkustu einstaklinga heims. 9.590 Íslendingar veita þriðja hæsta fjármagni til verkefna UN Women, sæti á eftir sjálfri Gates fjölskyldunni. Það er nokkuð sem við og Ljósberar okkar geta verið stolt af.

Enn langt í land

Enn er langt í land ef Heimsmarkmið 5 um jafnrétti á að nást fyrir árið 2030. Á síðustu tveimur árum hefur orðið mikið bakslag í jafnréttismálum, meðal annars vegna afleiðinga og viðbragða við COVID-19 heimsfaraldrinum.

Kynbundið ofbeldi hefur aukist, konur sinna ólaunuðum umönnunarstörfum af meiri mæli og eru líklegri til að búa við sárafátækt. Þá eru um 100 milljónir á flótta á heiminum í dag og hefur sú tala aldrei verið hærri.

Loftslagsbreytingar hafa jafnframt neikvæð áhrif á framgang jafnréttis og jöfnuðar og stigmagna aðeins þann ójöfnuð sem þegar ríkir í heiminum. Konur og stúlkur eru þannig líklegri til að verða fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga en karlmenn vegna veikrar samfélagsstöðu sinnar.

Áframhaldandi stuðningur við UN Women er því gríðarlega mikilvægur næstu árin, bæði til að sporna við því bakslagi sem hefur orðið í jafnréttismálum en einnig til að tryggja að Heimsmarkmiðin náist fyrir árið 2030.

 

 

Related Posts
Stella SamúelsdóttirIndverskar stúlkur, aþjóðadagur stúlkubarnsins